Um tvö þúsund tonn af kókaíni framleidd árið 2020

Ræktun kókalaufa náði nýjum hæðum árið 2021.
Ræktun kókalaufa náði nýjum hæðum árið 2021. AFP/Raul Arboleda

Ræktun kókalaufa tók mikinn kipp árið 2021 en samkvæmt nýútgefinni skýrslu fíkniefna- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna jókst hún um 35% frá árinu áður og hefur aldrei verið meiri.

Virðast tímabundnar truflanir vegna Covid-19 heimsfaraldursins á aðfangakeðjuna hafa haft lítil áhrif á langtímaþróunina á alþjóða fíkniefnamarkaðinum.

Samanlagt voru um 300 þúsund hektarar nýttir undir ræktun kókalaufa í Bólivíu, Kólumbíu og Perú árið 2021, að því er fram kemur í skýrslunni. Eins og margir þekkja eru blöðin notuð til framleiðslu á fíkniefninu kókaíni.

Kókaínneysla eykst

Áætlað er að framleiðslan á efninu hafi verið um tvö þúsund tonn árið 2020, en mikil aukning hefur verið í framleiðslu frá árinu 2014.

Þó svo að þróunina megi að hluta til rekja til mikillar fólksfjölgunar þá virðist kókaínneysla einnig hafa farið vaxandi ef tekið er mið af höfðatölu.

Ghada Waly, framkvæmdastjóri fíkniefna- og glæpaskrifstofunnar, segir ástæðu til að hafa áhyggjur af þróuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert