Hafa ekki hugmynd um hvað gerðist

Örn Sigurðsson og Gunnar H. Gunnarsson skipa efstu tvö sætin.
Örn Sigurðsson og Gunnar H. Gunnarsson skipa efstu tvö sætin. mbl.is/Árni Sæberg

Örn Sigurðsson sem skipar 2. sæti á lista E-framboðs, Reykjavíkur, bestu borgarinnar, og er jafnframt einn tveggja umboðsmanna framboðsins segist ekki hafa hugmynd um hvernig Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, lenti á listanum eða hvort að undirskrift hennar hafi verið fölsuð.

„Við vitum ekki hvað gerðist, við vitum ekki hvort þetta er fölsun eða hvort að þetta sé óréttmæt kvörtum eða ásökun. Það á bara eftir að útskýra það,“ segir Örn.

Birgitta greindi frá því í face­book-færslu í gær að und­ir­skrift henn­ar hefði verið fölsuð á skjali sem varðaði heim­ild til að setja nafn henn­ar á lista fram­boðsins til borg­ar­stjórn­ar. Birgitta sagði í samtali við mbl.is í dag að henni þætti leiðinlegt að forsvarsmenn Bestu borgarinnar hefðu ekki viðurkennt brot sín.

Ábyrgðarmenn framboðsins sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir sögðust ekki í aðstöðu til að meta fullyrðingu um fölsun undirskriftar Birgittu og að þeir hafi staðið í þeirri að trú að listarnir væru réttir.

„Við vitum ekkert meira“

Örn segir að umboðsmenn Bestu borgarinnar hafi sent yfirkjörstjórn bréf þar sem óskað var aðstoðar við að vinna úr málinu um leið og þeir fréttu af einhverri óánægju. „í gær þá urðum við áskynja af því að einhver sem er í 24. sæti hefði kvartað undan því að vera þar og jafnvel sagt að það væri fölsuð undirskrift og við vitum ekkert meira,“ segir Örn en það er Birgitta sem situr á 24. sæti listans.

Fyrr í dag vísaði yfirkjörstjórn í Reykjavík málinu til héraðssaksóknara. Eva Bryndís Helgadóttir formaður yfirkjörstjórnar sagði kjörstjórnina ekki hafa lagaheimild til að taka frambjóðanda af lista á þessu tagi.

Ekki náðist í Gunnar H. Gunnarsson oddvita listans við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert