Endurskoði stjórnunarfyrirkomulag Seðlabankans

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Morgunblaðið/Golli

Endurskoða þarf fyrirkomulag æðstu stjórnunar Seðlabanka Íslands í kjölfar sameiningar bankans og Fjármálaeftirlitsins.

Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar um árangur Seðlabanka Íslands á árunum 2020 til 2022.

Þremur erlendum sérfræðingum á sviði efnahags-, banka- og lífeyrismála var falið að gera úttekt á því hvernig Seðlabankanum hafi tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag á tímabilinu.

Sameining tókst vel

Skýrsluhöfundar telja sameiningu stofnananna tveggja hafa tekist vel og að starfsfólk sameinaðar stofnunar ræki skyldur sínar eins og til sé ætlast.

Úttektarnefndin segir að fyrirkomulag æðstu stjórnunar sem valið var í kjölfar sameiningarinnar kunni að hafa verið gagnlegt til að tryggja að fyrstu skref sameiningarinnar væru tekin með eins skilvirkum hætti og kostur var, en að það þjóni ekki vel hlutverki sínu til lengri tíma litið og þarfnist endurskoðunar.

Fyrirkomulagið víkur frá stjórnunarháttum

„Fyrirkomulag ákvörðunartöku á hæstu stöðum gengur ekki jafn snurðulaust og vænta mætti. Þörf er á breytingum, sérstaklega með tilliti til Fjármálaeftirlitsnefndar (FMEN). Tvær leiðir eru færar: væri önnur þeirra farin yrði umboð og hlutverk þessarar nefndar aukið með því að veita henni víðtækt hlutverk í mikilvægum áætlunum og stefnumálum; yrði hin leiðin fyrir valinu yrði umboðið þrengt enn frekar en nú er.

Það stjórnunarfyrirkomulag sem varð fyrir valinu eftir samrunann kann að hafa greitt fyrir mikilvægum fyrstu skrefum til að ná fram markmiðum með samrunanum. En fyrirkomulag æðstu stjórnunar felur í sér of vítt valdsvið. Það felur einnig í sér áhættu vegna lykilmanns. Í öðrum seðlabönkum sem fella eftirlit inn í starfsemi sína höfum við ekki kynnst fyrirkomulagi stjórnunar sem víkur í jafn ríkum mæli frá stjórnunarháttum. Við álítum ekki að þeir muni reynast vel til lengri tíma litið. Farsælla yrði að taka upp hefðbundnara stjórnunarfyrirkomulag.“

Takmarkað en betur skilgreint umboð FMEN

Skýrsluhöfundar telja að auðveldara væri að leysa úr sumum af þeim vandamálum sem upp hafa komið í tengslum við skipun nefndarmanna Fjármálaeftirlitsnefndar og formennsku í nefndinni innan ramma endurskoðaðs stjórnunarfyrirkomulags.

Þá segir í skýrslunni að ef nefndinni verði veitt takmarkað en betur skilgreint umboð verði ef til vill engin þörf fyrir utanaðkomandi nefndarmenn. Í staðinn gæti komið ferli ákvarðanatöku starfsmanna bankans.

Alltént væri þörf á öðru fyrirkomulagi ábyrgðarskila, ekki síst til að forðast óþarfa samþjöppun ákvarðanatöku, eins og segir í skýrslunni.

Sérstakar gætur á lífeyrissjóðskerfinu

Þá víkja skýrsluhöfundar sérstaklega að lífeyriskerfinu og benda á að tilefni sé til að hafa sérstakar gætur á því með tilliti til fjármálastöðugleika til að skilja við hvaða aðstæður lífeyrissjóðir gætu hugsanlega aukið á flökt og brenglun á markaði.

Lagt er til að gera greiningu á álagsprófi á stærri lífeyrissjóðum til þess að varpa ljósi á hvers konar kerfislega veikleika, á sviði sem á Íslandi tekur til óvenjulega stórs hluta fjármálakerfisins, í alþjóðlegum samanburði.

Þá er lagt til að reglur um lífeyrissjóði verði færðar í nútímalegt horf til að tryggja að lífeyrissjóðum sé vel stjórnað.

Efla hlutverk bankaráðs

Einnig er vikið að hlutverki bankaráðs sem er mikilvæg eining innan bankans. Skýrsluhöfundar telja að hlutverk þess mætti efla og telja að styrking umboðs þess gæti verið til bóta, þótt styrkingunni yrði að stýra með varfærnum hætti til að tryggja að sjálfstæði bankans stafaði engin ógn af pólitískum þrýstingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert