Óskabyrjun hjá Svíum þrátt fyrir forföll

Hampus Wanne skýtur að marki Norður-Makedóníu í leiknum í kvöld. …
Hampus Wanne skýtur að marki Norður-Makedóníu í leiknum í kvöld. Hann skoraði 11 mörk í leiknum. AFP

Þó Svíar séu án fjölmargra sterkra leikmanna á heimsmeistaramótinu í handknattleik og sé ekki spáð góðu gengi þá fengu þeir sannkallaða óskabyrjun í kvöld með því að sigra Norður-Makedóníu, 32:20.

Svíar náðu undirtökunum í fyrri hálfleik og voru með forystu, 16:11, að honum loknum. Þeir héldu áfram af fullum krafti og voru komnir tíu mörkum yfir fyrir miðjan síðari hálfleik, 24:14.

Eftir það var seinni hluti hálfleiksins formsatriði og Svíar sigldu afar öruggum sigri í höfn.

Svíþjóð: Hampus Wanne 11, Linus Persson 6, Max Darj 4, Jonathan Carlsbogard 2, Felix Claar 2, Jim Gottfridsson 2, Alfred Jonsson 1, Fredric Pettersson 1, Lukas Sandell 1, Valter Chrintz 1, Daniel Pettersson 1.

Norður-Makedónía: Kiril Lazarov 5, Stojanche Stoilov 2, Filip Kuzmanovski 2, Martin Popovski 2, Zharko Peshevski 2, Mario Tankoski 2, Cvetan Kuzmanoski 1, Filip Kuzmanovski 1, Darko Georgievski 1, Nikola Markoski 1, Martin Velkovski 1.

Egyptaland vann Síle, 35:29, í fyrsta leik H-riðilsins í gær. Svíar mæta Síle á laugardagskvöldið, eftir að Egyptar leika við Norður-Makedóníu.

Norður-Makedóníumenn mættu til leiks með stuttum fyrirvara en Tékkar drógu sig úr keppni vegna kórónuveirusmita á mánudaginn.

Kiril Lazarov, stórskyttan reynda frá Norður-Makedóníu, skýtur að marki Svía …
Kiril Lazarov, stórskyttan reynda frá Norður-Makedóníu, skýtur að marki Svía í leiknum í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert