Æsispennandi lokamínútur í jafntefli í Mosfellsbænum

Adam Haukur Baumruk jafnaði metin fyrir Hauka á ögurstundu.
Adam Haukur Baumruk jafnaði metin fyrir Hauka á ögurstundu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afturelding og Haukar skildu jöfn, 26:26, í hörkuleik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Mosfellsbæ í kvöld. Adam Haukur Baumruk náði að jafna metin fyrir Hauka seint í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með en um miðbik fyrri hálfleiks náðu Haukar yfirhöndinni og komust í 5:8 forystu.

Heimamenn í Aftureldingu voru ekkert á því að gefast upp og eftir að hafa lent 7:10 undir náðu þeir að jafna metin í 11:11.

Allt var í járnum en Afturelding komst yfir í fyrsta sinn í leiknum undir lok fyrri hálfleiks og náði að halda þeirri forystu, 14:13, þar til flautað var til leikhlés.

Í síðari hálfleik var áfram allt í járnum og líkt og í fyrri hálfleik náðu Haukar undirtökunum um miðjan hálfleikinn er liðið komst í 19:21 forystu.

Mosfellingar sneru hins vegar taflinu við og komust í 24:22. Þeir náðu að halda forskotinu og komast í 26:24.

Haukar gáfust hins vegar ekki upp og skoruðu tvö síðustu mörk leiksins, þar sem Adam Haukur skoraði þegar skammt lifði leiks í kjölfar þess að gestirnir úr Hafnarfirðinum tóku leikhlé.

Birkir Benediktsson var markahæstur heimamanna með fimm mörk á meðan Stefán Rafn Sigurmannsson var markahæstur Hauka með átta mörk úr jafnmörgum skotum.

Aron Rafn Eðvarðsson varði 11 skot í marki Hauka og Andri Sigmarsson Scheving, lánsmaður frá Haukum, varði sjö skot í marki Aftureldingar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert