Patrik líka sendur í sóttkví

Patrik Sigurður Gunnarsson markvörður Viborg.
Patrik Sigurður Gunnarsson markvörður Viborg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Patrik Sigurður Gunnarsson, annar markvarða 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, getur ekki spilað með liði sínu Viborg gegn Fremad Amager í dönsku B-deildinni núna síðdegis því hann er kominn í sóttkví. Leikur liðanna hefst kl. 16.

Viborg greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni en ástæðan er sú að Elías Rafn Ólafsson, markvörður Fredericia í sömu deild og hinn markvörður 21-árs landsliðsins, greindist með kórónuveiruna við komuna til Danmerkur. Þeir voru báðir með liðinu í Lúxemborg þar sem það sigraði heimamenn 2:0 í Evrópukeppninni á þriðjudaginn.

Patrik kom til Viborg í láni frá enska félaginu Brentford í síðasta mánuði og hefur spilað síðustu þrjá leiki Viborg sem er efst í deildinni.

Þá hefur Silkeborg birt byrjunarlið og varamenn í leik sínum við Hvidovre í dönsku B-deildinni sem hefst kl. 16.30. Stefán Teitur Þórðarson, sem lék með 21-árs landsliðinu í Lúxemborg, var í 18 manna hópi sem hafði verið tilkynntur fyrir leikinn en er ekki lengur í hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert