Sagosen þarf aftur undir hnífinn

Ýmir Örn Gíslason og Sander Sagosen í leik Ísland og …
Ýmir Örn Gíslason og Sander Sagosen í leik Ísland og Noregs á HM 2021 í Egyptalandi. AFP

Norska handknattleiksstjarnan Sander Sagosen þarf að gangast undir aðra skurðaðgerð á ökkla eftir að aðgerð sem hann gekkst undir í byrjun júní bar ekki þann árangur sem vonast hafði verið eftir.

Sagosen ökklabrotnaði í leik með Kiel gegn Hamburg í þýsku 1. deildinni í byrjun júní.

Stuttu síðar gekkst hann undir aðgerð og tilkynnti Kiel að hún hafi gengið vel. Svo var þó ekki og þarf Sagosen að fara undir hnífinn að nýju.

„Eftir hefðbundna skoðun sem við framkvæmum eftir slíkar aðgerðir hefur komið í ljós að ástandið á ökklanum er ekki eins og best verður á kosið.

Með þeim kröfum sem eru gerðar til leikmanns eins og Sagosens er það ljóst að það verður að framkvæma aðra aðgerð,“ sagði Harald Marcussen, sjúkraþjálfari norska karlalandsliðsins, í samtali við TV2 í Noregi.

Bætti hann því við að aðgerðin verði framkvæmd á mánudag eða þriðjudag í komandi viku.

Vonir höfðu staðið til þess að Sagosen yrði klár í slaginn fyrir HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi, sem hefst þann 12. janúar á næsta ári, en Marcussen sagði erfitt að segja til um hvenær hann mætti búast við honum aftur á völlinn.

„Brotið verður þá búið að gróa en hann verður að vera búinn að ná hreyfigetu sinni aftur og fyrr vöðvastyrk. Hann þyrfti helst að vera búinn að spila einhvern handbolta fyrir mótið,“ sagði sjúkraþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert