Himinlifandi eftir afburðarsigur

Diljá Mist Einarsdóttir frambjóðandi.
Diljá Mist Einarsdóttir frambjóðandi. Ljósmynd/Aðsend

„Mér líður ótrúlega vel, er eitthvað hægt annað?“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins til Alþingis. 

Diljá hlaut afburðakosningu í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmunum sem fram fór á föstudag og í gær. Hún hlaut þriðja sætið í kosningunum og hafði tæplega þúsund atkvæða forskot á næsta frambjóðanda þegar lokatölur lágu fyrir á öðrum tímanum í nótt. 

Kvíðir ekki kosningum

„Ég er spennt fyrir kosningum í haust. Listinn er sterkur og sigurstranglegur. Ég held að við sjálfstæðismenn þurfum ekki að kvíða kosningunum,“ segir Diljá Mist. 

Gerir þú ráð fyrir að taka sæti á sama lista og Guðlaugur Þór?

„Það á eftir að koma endanlega í ljós en það er hefð fyrir því já. Ég bíð bara og sé hvernig það fer í meðferð kjörnefndar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, sem vann prófkjörið í gærkvöldi, hafði sérstaklega orð á því að árangur Diljár í prófkjörinu væri einn sá besti hjá nýliða í sögu Sjálfstæðisflokksins í borginni. Diljá segist ekki hafa velt því sérstaklega fyrir sér. 

„Ég hef ekki gert það og ég heyrði þetta bara fyrst í gærkvöldi, að þetta væri sérstaklega góður árangur. Ég var svo sem ekki með hugann við það. Ég var aðallega með hugann við þakklæti til fólksins míns fyrir stuðninginn. Það eru auðvitað fleiri en ég sem eru búnir að leggja dag og nótt í þetta, rosalega stór, sterkur og þéttur hópur sem stóð við bakið á mér. Ég fæ þeim seint fullþakkað.“

Starfið með Guðlaugi hjálpað 

Diljá Mist segir að margt hafi fallið með sér og gengið upp í prófkjörsbaráttunni. Hún segist finna fyrir að það hafi hjálpað sér og fólk litið á það sem meðmæli að hún hafi verið aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs. 

Diljá Mist og Guðlaugur Þór voru ánægð með úrslit prófkjörsins …
Diljá Mist og Guðlaugur Þór voru ánægð með úrslit prófkjörsins í nótt. Ljósmynd/mbl.is

Deginum ætlar Diljá Mist að verja með börnunum sínum. 

Ertu lent eftir sigurvímuna?

„Já, það er svo sem ekki annað hægt þegar maður er með tvo litla grislinga. Ég var búin að lofa þeim deginum í dag og búin að segja við þau að mamma myndi ekki vinna allan daginn í dag. Þau kippa manni hressilega niður á jörðina. Planið í dag er bara að knúsa börnin mín og manninn minn,“ segir Diljá Mist.

Diljá Mist og Róbert Benedikt, maðurinn hennar, eiga saman tvö …
Diljá Mist og Róbert Benedikt, maðurinn hennar, eiga saman tvö börn. Deginum verður varið með þeim að sögn Diljár. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert