„Fyrri hálfleikur versta frammistaða í sögu Leiknis“

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var svekktur með frammistöðu sinna …
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var svekktur með frammistöðu sinna manna. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Leiknis var að vonum svekktur eftir 3:1 tap gegn ÍA í Pepsi Max deild karla á Akranesi í dag. „Fyrstu viðbrögð eru að fyrri hálfleikurinn var gjörsamlega til háborinnar skammar. Seinni hálfleikurinn var skömminni skárri en heilt yfir áttum við ekki neitt skilið.“

Sigur í dag hefði tryggt veru Leiknismanna í efstu deild en þetta tap þýðir að þeir eru ekki alveg hólpnir ennþá. „Leikmenn þurfa bara að spila upp á það að eiga skilið að klæðast Leiknistreyjunni. Við erum ekki búnir að vinna útileik, þessi frammistaða sem átti að vera sú sem myndi keyra okkur inn í þessa þrjá síðustu leiki var gjörsamlega fyrir neðan allar hellur svo að menn þurfa bara að finna einhvern kraft fyrir þessa síðustu leiki.“

Sigurður var ekki sáttur með frammistöðu leikmanna sinna í dag. „Það eru alveg ofboðslega margir leikmenn sem ég er ósáttur út í. Þessi fyrri hálfleikur hlýtur að hafa verið lélegasta frammistaða í sögu Leiknis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert