Varð fyrir bjarnarárás á salerninu

Grábjörn. Mynd úr safni.
Grábjörn. Mynd úr safni.

Kona í Alaska-ríki í Bandaríkjunum segir að hún hafi „hoppað upp og öskrað“ þegar hún varð fyrir bjarnarárás á salerninu. 

Shannon Steven hlaut minni háttar áverka við atvikið, en hún var að nýta sér útikamar við Chilkat-vatn um síðustu helgi þegar hún varð fyrir bjarnarárásinni. 

Eftir að hafa heyrt öskur systur sinnar fór bróðir Stevens út til að kanna hvað amaði að. Hann sá þá björn skjóta upp kollinum úr klósetti kamarsins. Meiðsl Stevens orsökuðust annaðhvort af biti eða klóm bjarnarins.

Stevens hafði verið í helgarferð og gist í mongólsku tjaldi með bróður sínum Erik og kærustu hans þegar atvikið átti sér stað. Fyrr um kvöldið höfði þremenningarnir grillað pylsur yfir opnum eld og skemmt sér vel. 

„Ég fer þarna út og sest á klósettið og um leið finn ég eitthvað bíta mig í rassinn,“ sagði Stevens í viðtali við AP-fréttastofuna. Erik fór þá út með höfuðljós og þegar inn á kamarinn var kominn beindi hann ljósinu að klósettinu. „Þá var þarna, við klósettbrúnina, kanillitað bjarnarandlit,“ sagði Erik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert