Fyrirtækið Lunar Outpost vann útboð bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA um að safna tunglgrjóti í gær, og mun fá einn Bandaríkjadal, um 126 krónur, greiddan. Þrjú önnur útboð fyrir söfnun auðlinda frá tunglinu fóru einnig fram. Samningarnir marka tilurð markaðs fyrir hluti utan úr geimnum.

Stefnt er að því að söfnunin fari fram árið 2023, en framkvæmdastjóri Lunar Outpost segir þó hugsanlegt að hún gæti hafist fyrr.

Í frétt BBC um málið er greiðslan – eins og kannski við má búast miðað við upphæðina – ekki sögð helsti hvati fyrirtækjanna, heldur vísindaleg framþróun og reynsla af geimferðum og auðlindasöfnun á tunglinu í samvinnu við NASA, sem nýst geti síðar meir.

Fyrirtækin sem unnu hin útboðin voru hið bandaríska Masten Space Systems og hið japanska ispace, auk evrópsks dótturfyrirtækis þess síðarnefnda. Greitt verður fyrir söfnun milli 50 og 500 gramma af jarðvegi á tunglinu, en auk þess þurfa fyrirtækin að greina geimferðastofnuninni myndrænt og á annan hátt frá söfnuninni.

Haft er eftir geimsérfræðingi að það að NASA greiði fyrirtækjum yfir höfuð fyrir auðlindasöfnunina setji mikilvægt fordæmi. Þar með sé orðinn til markaður fyrir vörur utan úr geimnum. Greiðslan verður þrískipt: 10% við samning, 10% við flugtak geimfarsins, og restin þegar staðfest hefur fengist að efnisins hafi verið aflað.