Erfiður vetur fram undan

AFP

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, varaði við því að það væri erfiður vetur fram undan vegna fjórðu bylgju kórónuveirunnar, sem leikur nú Evrópu grátt. Tilfellum í flestum ríkjum Vestur-Evrópu fjölgaði ört í síðustu viku frá vikunni áður, og er það sjöunda vikan í röð samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu sem nýjum tilfellum hefur fjölgað í álfunni.

Sagði Spahn að ástandið væri það slæmt að líklega yrðu allir Þjóðverjar eitt af þrennu í lok vetrarins; bólusettir, læknaðir af kórónuveirunni eða látnir af völdum hennar. Hvatti hann sem flesta til þess að láta bólusetja sig, en stjórnvöld í Þýskalandi hafa rætt að setja á bólusetningarskyldu, en einungis um 68% þýsku þjóðarinnar hafa látið bólusetja sig. Munu kristilegu flokkarnir vera fylgjandi því, en sósíaldemókratar, sem leiða nú viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar, eru efins.

Þjóðverjar íhuga einnig frekari takmarkanir, einkum gagnvart þeim sem ekki hafa þegið bólusetningu gegn kórónuveirunni. Varaði Angela Merkel Þýskalandskanslari við því á fundi flokksleiðtoga kristilegra demókrata í gær að þær aðgerðir sem þegar hefði verið gripið til væru ekki nóg til þess að stemma stigu við fjórðu bylgju kórónuveirunnar. Sagði hún að fjöldi nýrra tilfella tvöfaldaðist nú á tólf daga fresti í Þýskalandi.

Þau sambandslönd sem verst hafa orðið úti í fjórðu bylgjunni hafa þegar gripið til hertra aðgerða, og hefur t.d. öllum jólamörkuðum í Bæjaralandi verið lokað vegna ástandsins. Ekki er þó víst hvort Þýskaland eða önnur ríki muni grípa til útgöngubanns á borð við það sem gekk í gildi í Austurríki í gær, en það eru hörðustu aðgerðir sem gripið hefur verið til í Evrópu frá því á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert